Jörðin hverfur í Cloverfield 3 – God Particle kemur í febrúar

God Particle, sem kemur í bíó hér á Íslandi 24. febrúar nk., verður þriðja myndin í Cloverfield geimveruseríunni. The Wrap vefsíðan greinir frá þessu.

Hinar Cloverfield myndirnar, sem tengjast lauslega, eru Cloverfield frá árinu 2008 og síðan Cloverfield Lane frá því fyrr á þessu ári, 2016.

god-particle-cloverfield

Rétt eins og gert var síðast, þegar Paramount tilkynnti aðeins nokkrum mánuðum fyrir frumsýningu Cloverfield Lane, að myndin yrði hluti af Cloverfield seríu, þá hefur Paramount nú endutekið þann leik.

Cloverfield lane, sem Dan Trachtenberg leikstýrði, þénaði meira en 100 milljónir Bandaríkjadala um allan heim, og því biðu framleiðendur ekki boðana heldur kölluðu leikhópinn saman aftur til að byrja á God Particle, sem enginn annar en Star Wars: The Force Awakens leikstjórinn og ofurframleiðandinn J.J. Abrams framleiðir.

Julius Onah leikstýrir og með aðalhlutverk fara David Oyelowo, Gugu Mbatha-Raw, Ziyi Zhang, Elizabeth Debicki, Daniel Brühl og Chris O’Dowd.

Myndin segir frá því þegar óvænt uppgötvun neyðir hóp geimfara í geimstöð, til að berjast fyrir lífi sínu eftir að veruleika þeirra hefur verið umbylt. Þessi uppgötvun, eða tilraun, verður til þess að Jörðin hverfur með manni og mús!

Í frétt The Wrap segir einnig að Paramount og Abrams ætli sér að gera eina nýja Cloverfield mynd á hverju ári héðan í frá.

Von er á fyrstu ljósmynd úr God Particle bráðlega og vonandi stiklu í kjölfarið á því.